Flokkun og förgun spilliefna 

Það er stefna Háskóla Íslands að fylgja alþjóðlegum reglum um umhverfismál og förgun lífsýna og spilliefna. Mörg þeirra efna sem notuð eru innan háskólans eru skaðleg umhverfi, mönnum og dýrum. Því ber að flokka allt sorp og spilliefni á réttan hátt og senda til förgunar hjá viðurkenndum aðila. 

Í hverri byggingu háskólans er spilliefnum safnað saman á einn stað. Þessi efni geta verið eitruð, heilsuspillandi, ætandi, krabbameinsvaldandi og smitandi og hegðun þeirra og hvarfgirni skipta máli þegar þau eru flokkuð. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að sumum efnum má alls ekki blanda saman og önnur verður að afeitra áður en þau eru afhent til förgunar.

Hverju efni fylgir öryggisblað (e. safety data sheet, SDS) þar sem kemur fram hvers ber að varast í meðhöndlun efnisins og hvernig á að bregðast við ef maður fær efnið yfir sig. Öryggisblöð má nálgast á heimasíðum framleiðenda. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að farga tilteknu efni skaltu leita til ábyrgðamanns rannsóknastofunnar eða til fulltrúa öryggisnefndarinnar á staðnum.  

Við Háskóla Íslands eru spilliefni flokkuð eftir eiginleikum og merkt með viðeigandi merki eins og þessi tafla sýnir.

Það er mikilvægt að velja réttar umbúðir undir spilliefni.

  • Ekki nota glerflöskur til að safna spilliefnum. Það getur myndast þrýstingur í safnflöskunni og glerflöskur geta brotnað en það gera plastdunkar ekki. Þessi regla gildir að sjálfsögðu ekki ef efnið bræðir plast.
  • Ekki nota málmílát undir spilliefni, sýrur og basar tæra málminn.
  • Ekki fylla ílát nema 80-90%
  • Lokið ílátum kyrfilega þegar þau eru full og skilið á safnstaðinn í ykkar húsi.

spilliefnamiðiÞað er mikilvægt að merkja vandlega umbúðir sem innihalda spilliefni. Bæði með nafni eða nöfnum efna og með bókstaf sem gefur til kynna hvaða flokki þau tilheyra. Athugið að skammstafanir eins og MeOH eða HCl nægja ekki, það þarf að skrifa heiti efnisins. Notið til þess gerða límmiða og límið yfir eldri merkingar á ílátum.

Efnunum skal safnað saman á einn stað í hverri byggingu þaðan sem viðurkennt fyrirtæki tekur það og flytur til förgunar eða urðunar eftir því sem við á. 

Allt lífrænt sorp frá rannsóknastofum þar sem unnið er með lífsýni, örverur, tilraunadýr, líffræðilega skaðvalda og erfðabreyttar lífverur skal sótthreinsa eða sæfa áður en það fer út úr húsi.

Sóttmengaðar nálar, hnífsblöð eða gler má alls ekki setja í poka með öðru sóttmenguðu sorpi. Það getur verið mikil hætta á að þeir sem vinna við að flytja eða sæfa sorpið stingi sig á þeim. Alla oddhvassa hluti á að meðhöndla með sérstakri varúð, sjá kaflann um glerbrot og nálar.  

Nálar, hnífsblöð og rakvélablöð sem notuð eru í verklegum námskeiðum eða á rannaóknstofum skal setja í til þess gerð box og þeim síðan fargað í heilu lagi. Það má setja heilar sprautur með nálum í boxin. Boxin skal sæfa áður en þau fara út úr húsi.

Gler sem ekki er sent í endurvinnslu sem og brotið gler er sett í sérstaka tunnu. Sóttmengað gler verður að sæfa fyrst. Mengaðar glerflöskur undan efnum verður að skola og þurrka áður en þeim er hent.

Sóttmengaðar nálar, hnífsblöð eða gler má alls ekki setja í poka með öðru sóttmenguðu sorpi. Það getur verið mikil hætta á að þeir sem vinna við að flytja eða sæfa sorpið stingi sig á þeim. Alla oddhvassa hluti á að meðhöndla með sérstakri varúð.  

hreinsað ílát límmiðiÞegar tómum umbúðum er hent verður að athuga að tómar umbúðir með hættumerkjum eru spilliefni og eiga að flokkast samkvæmt því.

Til að komast hjá því að setja umbúðir í spilliefnaflokk verður að hreinsa þær og merkja sérstaklega sem "hreinsað ílát" með sérstökum merkimiða sem verður að líma yfir hættumerkingar sem fyrir eru á umbúðunum.

Starfsmenn Háskóla Íslands bera ábyrgð á flokkun sorps sem fellur til vegna kennslu eða rannsókna. Þeir skulu sjá til þess að stúdentar og aðrir starfsmenn fylgi reglum um flokkun, varðveislu og förgun efna.