Rannsóknastofa er enginn venjulegur vinnustaður. Fólk sem vinnur á rannsóknastofu er umkringt ýmsiskonar hættum. Efni sem þar eru geymd geta verið leysandi, ætandi eða eldfim, jafnvel sprengifim, og ef vinnubrögð eru óvönduð getur margt farið úrskeiðis, eiturgufur geta myndast, eldur kviknað eða veirur sloppið út.
Þegar þú kemur inn á rannsóknarstofu í fyrsta sinn er fyrsta verkefnið að átta sig á hvernig hún er byggð upp. Hvar eru flóttaleiðirnar? Hvar er vaskurinn og neyðarsturtan, augnskol, slökkvitæki og eldvarnateppi svo eitthvað sé nefnt. Ef þú ert að koma inn á rannsóknarstofu í fyrsta sinn er nauðsynlegt vera árvökull og kynna sér aðstæður á þessu nýja vinnusvæði.
Það er algerlega og stranglega bannað að vera með mat eða drykk af nokkru tagi inni á rannsóknastofu. Vatnsflöskur og kaffibollar líka! opin ílát eða lokuð. Allt er bannað. Maður er ekki með matvæli af nokkru tagi á sama stað og maður er að vinna með hættuleg efni eða hættulegar örverur.
Reykingar eru bannaðar á lóð háskólans, nema á sérmerktum svæðum, og notkun áfengis og vímuefna er stranglega bönnuð og getur það varðað brottrekstri að vera undir áhrifum slíkra efna inni á rannsóknastofu.
Öryggi þitt byggir á þekkingu þinni á verkefninu og því hve vel þú hefur undirbúið þig áður en þú hefur störf.
Leitaðu upplýsinga um þau efni og tæki sem þú ætlar að vinna með:
- Sé það tæki skaltu leita þér upplýsinga og sýnikennslu áður en þú kveikir á tækinu. Tæki á rannsóknastofum eru oft mjög flókin og dýr og enginn sem ekki hefur fengið rétta þjálfun á að eiga neitt við þau.
- Sé það efni, skiptir máli að kynna sér eiginleika þess og hegðun. Er það eldfimt, ætandi eða eitrað? Lestu á miðann á umbúðunum og leiðbeiningarnar sem fylgja til að komast að því. Öryggisblöð (SDS) sérhvers efnis eru jafnframt aðgengileg á netinu og gefa ítarlegar upplýsingar um meðhöndlun og eiginleika þess. Séu engar upplýsingar til staðar berð þú ábyrgð á að leita upplýsinga áður en þú byrjar að vinna með efnið.
Góður undirbúningur er forsenda þess að vel takist til og rétt vinnubrögð eru lykillinn að góðum árangri. Ef einhver vafi leikur á hvernig staðið skuli að framkvæmd verkefna skuluð þið leita upplýsinga og/eða sýnikennslu. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.
- Óviðkomandi fólki er ekki heimill aðgangur að rannsóknastofum eða tækjarýmum. Þessi rými skulu læst þegar enginn er að vinna þar.
- Ef þú ert í vafa skaltu biðja yfirmann eða leiðbeinanda um upplýsingar og fá sýnikennslu eða þjálfun í notkun tækis eða meðferð efnis sem ykkur er ætlað að vinna með.
- Ekki snerta eða fikta í neinu á rannsóknastofunni sem þið þekkið ekki og vitið ekki til hvers er.
- Látið loga á brennurum eins stutt og mögulegt er, sérstaklega ef verið er að nota eldfim efni á rannsóknastofunni. Gangið úr skugga um að brennarar virki eins og þeir eiga að gera. Það má aldrei skilja logandi brennara eftir án eftirlits.
- Meðhöndlið öll efni af fyllstu varúð, lesið alltaf öryggisblað efnis (SDS) áður en þiðeitið upplýsinga á netinu, finnið SDS (e. safety data sheet) fyrir efnið.
- Merkið lausnir og blöndur mjög greinilega með innihaldi og dagsetningu og skrifið líka nafn ykkar eða fangamark. Geymið á öruggum stað.
- Notið réttar persónuhlífar og setjið hár í tagl, hnút eða fléttur.
- Notið ávallt öryggisgleraugu og hanska þegar þið eruð að vinna með efni. Hvort sem þau eru á vökva- eða duftformi.
- Venjuleg gleraugu koma ekki í stað öryggisgleraugna nema þau hafi hliðarvörn.
- Farið úr slopp og takið af ykkur hanska áður en þið farið út af rannsóknastofunni.
- Verið ávallt hreinleg og gangið frá öllu sem ekki er verið að nota.
- Verið í lokuðum skóm á rannsóknastofunni það ver mann gegn slysum ef eitthvað hellist niður eða dettur á tærnar á manni.
- Þvoið ykkur um hendurnar reglulega og alltaf þegar þið farið út af rannsóknastofunni. Notið sápu en ekki lífræna leysa.
- Verið aldrei ein að störfum á kvöldin eða um helgar á rannsóknastofu.
- Verði óhapp, kallið strax á hjálp og látið vita.
- Sjúgðu aldrei neitt upp í pípettu með munninum, notaðu handdælu eða gúmmíbolta.
- Ekki skilja eftir fatnað eða töskur í gangvegi þar sem fólk getur hrasað um það.
Ef þú ert að vinna með sýni eða óþekkt efni skalt þú ávallt meðhöndla það sem „hættulegasta efni í heimi“ þar til þú hefur kynnt þér eiginleika þess. Bannað er að vinna með lífshættuleg efni nema hafa fengið viðeigandi þjálfun. Gakktu hægt þurfir þú að flytja efni á milli staða, ekki hlaupa!
Allar umbúðir eiga að vera vel lokaðar meðan á flutningi stendur. Ekki skilja eftir töskur, fatnað eða annað á gönguleiðum svo enginn reki sig í og detti. Varastu blaut gólf. Sjáið til þess að allt vinnusvæðið sé hreint, sérstaklega í kringum vogir, í sogskápnum og þar sem efnin eru geymd.
Allar flöskur og umbúðir eiga að vera hreinar og lausar við tauma, dropa eða agnir að utanverðu. Þrífið eftir ykkur áður en þið látið efnið frá ykkur svo að næsti notandi fái ekki efnið á sig. Þegar gengið er frá efnunum má aldrei hella þeim aftur í umbúðirnar! Hafi efni hellst niður, gler brotnað eða annað, skal það þrifið strax samkvæmt þeim vinnureglum sem gilda þar um. Borð, gólf og sogskápar skulu vera hrein og þrifin í lok vinnudagsins.
Vinna með eldfim efni eins og leysiefni á að fara fram í sogskápum. Þessi efni má aldrei hita upp með gasloga, eingöngu á vatnsbaði. Þegar verið er að pípettera skal eingöngu nota gúmmíbolta eða önnur hjálpartæki. Aldrei má sjúga upp vökva eða sýni með munninum. Það er stranglega bannað að taka efni út af rannsóknarstofunni til eigin nota. Sá sem slíkt gerir á von á áminningu eða brottrekstri. Það er óheimilt að vera einn að störfum á rannsóknarstofum Háskóla Íslands.
Hver og einn skal sjá til þess að vinnusvæðið sé hreint í lok vinnudagsins. Ræstingarfólk og aðrir starfsmenn (og nemendur) eiga að geta treyst því að ef þau leggja höndina á borðið, þá fái þau ekki á sig sýkil eða efni sem geta valdið þeim heilsutjóni.
Áður en vinnusvæði er yfirgefið skal eftirfarandi gert:
- Loka fyrir gas, vatn og rafmagn
- Slökkva á tækjum sem ekki þurfa að vera í gangi
- Þrífa vinnusvæðið
- Sjá til þess að allar umbúðir séu lokaðar
- Sjá til þess að öll efni séu á sínum stað
- Loka sogskápum
- Þvo hendurnar