Gufusæfir

Dauðhreinsun

Í gufusæfi er vökvi, glös ofl. dauðhreinsað með hita og gufuþrýstingi. Þeir eru aðallega notaður á rannsóknarstofum þar sem unnið er með lífsýni, örverur og líffræðilega skaðvalda. Einnig þar sem þörf er á sæfðum lyfjum eða efnum og til að setja ákveðin efnahvörf af stað.

Gufusæfir eða Átóklavi eins og þeir eru oft kallaðir eru til í mörgum stærðum og gerðum eftir því hvað þeim er ætlað að dauðhreinsa. Einfaldasta gerð þessara tækja eru hraðsuðupottar sem margir kannast við. Lokaður kútur með botnfylli af vatni þar sem hiti heldur uppi gufuþrýstingi. Gufusæfir á rannsóknastofu virkar í aðalatriðum eins en er bara stærri og með fleiri stillingar. Reyndar er ekki óalgengt að sjá hraðsuðupotta notaða á rannsóknastofum fyrir minni verk sem ekki krefjast mikillar nákvæmni.

Algengt er að sæfa við 121°C í 15 mínútur. Við þær aðstæður verður þrýstingur inni í kútnum u.þ.b. 1 bar og við þær aðstæður drepst nánast allt lifandi efni en á því eru nokkrar mikilvægar undantekningar. Gró nokkurra tegunda örvera geta lifað af sæfingu og príon smitefni þola sæfingu. Nokkuð sem hafa ber í huga þegar dauðhreinsiaðferð er valin.

Hvað má fara í gufusæfi:

  • Glerglös, glerflöskur og skálar úr gleri.
  • Málmverkfæri, t.d. hnífa eða sprautur sem þurfa að vera dauðhreinsuð.
  • Plast sem þolir hita og þrýsting, Polypropylene (PP) og Teflon til dæmis.

Hvað má ekki fara í gufusæfi:

  • Plast sem þolir ekki hita og þrýsting, svo sem Polystyrene (PS) og til dæmis
  • Ætandi efni, sýrur og basa
  • Eldfim efni, metanól, etanól, klóróform eða fenól
  • Geislavirk efni

Öryggi

Mælt er með því að eingöngu séu notuð borosilíkathúðuð glös, þ.e. Pyrex eða Kimax glös, en þau eru gerð til að þola þennan mikla þrýsting og hita.

Lok og tappar mega alls ekki vera þéttskrúfuð á flöskur og önnur ílát. Loft verður að geta streymt inn og út, annars springa þau.

Glösum og flöskum sem ekki eiga sitt eigið lok á að loka með álpappír til að þau haldist dauðhreinsuð að innan eftir að þau eru tekin út. Þannig er hægt að geyma ílát dauðhreinsuð í langan tíma.

Áður en hlutir eru settir í gufusæfi á að líma á þá sæfilímband. það er sérstakt röndótt límband þar sem rendurnar breyta um lit við háan hita, verða oftast svartar eða bláar við u.þ.b. 120°C. Þannig veit maður að keyrslan hefur hepnast.

Tækið má ekki gangsetja nema það sé tryggilega lokað og allar öryggislæsingar yfirfarnar. Þegar þrýstiklefinn er opnaður skal það gert varlega (gott er að hinkra í 10 mínútur áður en hann er opnaður). Haldið andliti og höndum frá opinu svo þið fáið ekki heitar gufur á ykkur. Notið hanska og öryggisgleraugu.