Öryggisskápar

Öryggisskápar eru til af nokkrum gerðum, víða eru svokallaðir vefjaræktarskápar og Líffræðilegir öryggisskápar, “Biological safety cabinets”. Allir þessi skápar eru í daglegu tali kallaðir öryggisskápar eða “laminar flow” skápar. Allir dæla þeir lofti í gegnum “High efficiency particulate air” fílter, HEPA fílter, í hægu lagstreymi, þ.e. streymi án ólgu eða iðustrauma. Þaðan er nafnið laminar flow skápar fengið.

Hreinvinnuskápar (e. Clean bench) eru hannaðir til dæla lofti í gegnum HEPA filter lárétt út úr skápnum í átt til notandans. Þannig eru þessi skápar kjörnir til vinnu með sýni eða ræktir sem eru viðkvæm fyrir mengun því viðfangið inni í skápnum er varið fyrir notandanum og umhverfinu. Notandinn er, á hinn bóginn, ekki varinn gegn óæskilegum áhrifum frá ræktinni eða sýninu. Þessir skápar eru því, strangt til tekið, ekki öryggisskápar.

Eiginlegir öryggisskápar, “Biosafety cabinets” eru til í þremur flokkum með mismunandi eiginleika. Þegar vinna er skipulögð verður að ganga úr skugga um að skápurinn sem á að nota sé af hentugri gerð.

Flokkur I eru skápar sem verja notandann og umhverfið en ekki viðfangið. Loftið er tekið inn um vinnuopið á skápnum og reyndar getur sogið inn í skápinn valdið mengun í sýnum og ræktum. Virkni þessara skápa svipar til venjulegra sogskápa nema að því leiti að loftið er síað í gegnum HEPA filter áður en því er blásið út. Skápar af þessari gerð henta ekki til vinnu með sýni eða ræktir sem eru viðkvæm fyrir mengun

Flokkur II eru skápar þar sem notandinn, umhverfið og viðfangið erum varin hvert gegn öðru. Lofti er dælt inn í þessa skápa í gegnum HEPA filter áður en það leikur um vinnuplásið og síðan aftur í gegnum HEPA filter þegar það fer út úr skápnum. Þessir skápar skiptast í tvo undirflokka, A og B, eftir því hvernig loftflæði er stýrt í gegnum þá. Algengast er að öryggisskápar séu af Flokki II.

Flokkur III eru mjög sérhæfðir öryggisskápar sem eru alveg lokaðir og til vinnu með hættulega sýkla. Þessir skápar eru sjáldgæfir, oftast sérsmíðaðir, og aðeins til á sérstökum, til þess gerðum rannsóknastofum.

  1. Slökkvið á útfjólubláu ljósi ef það er notað. Ath. Útfjólublátt ljós eitt og sér er ekki 100% öryggt til að sótthreinsa skápa. Það verður að nota aðrar aðferðir líka.
  2. Kveikið á ljósinu og gangið úr skugga um að ekkert hindri loftflæði um gatasigtið, þar sem lofti er dælt inn í skápinn.
  3. Hafið skápinn lokaðan, kveikið á blásaranum og leyfið honum að vinna í u.þ.b. 5 mínútur til að hreinsa loftið inni í skápnum.
  4. Á meðan skápurinn er að hreinsa sig skuluð þið þvo ykkur vandlega um hendur.
  5. Klæðið ykkur í slopp og hanska.
  6. Sótthreinsið skápinn með sótthreinsivökva, t.d. 70% Etanóli. Byrjið innst og strjúkið frá hægri til vinstri yfir flötinn, að ykkur. Strjúkið líka yfir loft og hliðar og innan á glerhurðinni.
  7. Setjið hluti sem þið þurfið til verksins innst í skápinn (ruslatunnu, pípettuodda, æti o.s.frv.). Stillið þeim upp þannig að það þurfi sem minnsta hreyfingu innan skápsins.
  8. Skilgreinið hreint svæði og og óhreint sem hvort um sig ætti að vera til hliðar við vinnusvæðið þitt.
  9. Þegar þið setjið hendurnar inn í skápinn til að byrja að vinna, staldrið við eitt augnablik til að leyfa loftflæði skápsins að aðlagast.
  10. Haldið handahreyfingum innan skápsins í lágmarki. Allar hreyfingar ættu að vera hægar og helst inn og út úr skápnum en sem minnst til hliðanna. Munið að öryggi skápsins byggir allt á því hvernig loft flæðir um hann.
  11. Þegar vinnunni er lokið skal fjarlægja allt rusl úr skápnum og sótthreinsa með viðeigandi hætti.
  12. Strjúkið yfir og sótthreinsið vinnusvæðið eins og áður. Lokið skápnum, slökkvið á ljósinu og leyfið blásaranum að ganga í 5 mínútur áður en slökkt er á honum.
  13. Kveikið á útfjólubláu ljósi og látið það loga í 30 mínútur. Það er ástæðulaust að láta það loga lengur, það eyðir perunni en eftir 30 mínútur er útfjólubláa ljósið búið að gera sitt gagn.