Líffræðilegt öryggi

Til líffræðilegra skaðvalda teljast frumuræktir, innri sníkjudýr í fólki sem geta valdið smiti, ofnæmi eða eitrun af einhverju tagi, örverur (bakteríur, veirur, sníkjudýr og sveppir) og lífverur sem hefur verið breytt með erfðatækni. Undir þennan flokk falla einnig erfðaefni (DNA og RNA) og efni unnin úr plöntum og dýrum.

Öll lífsýni, hvort sem það er blóðprufa, strok eða vefjasýni, skal meðhöndla af fyllstu varúð. Meðhöndlið öll slík sýni eins og í því væri bráðsmitandi veira. Til líkamsvessa teljast sýni eins og blóð, legvatn, liðvökvi, mænuvökvi, slím úr leggöngum, sæði og vökvar sem umlykja hjarta og önnur líffæri. Önnur lífsýni geta verið hráki, hægðir, þvag, uppköst, tár, sviti og slím úr öndunarfærum.

Margar smitleiðir eru á þessum rannsóknarstofum frá sýnunum sjálfum, t.d. ef úði eða agnir dreifast út í umhverfið og valda smiti. Þegar sýkingar eiga sér stað, tengist það yfirleitt óhöppum, augnabliks vangá eða kæruleysi. Sum slys verða vegna innöndunar úða sem getur myndast við blöndun sýna, þegar tappa er smellt af glasi eða eftir að sýni eru tekin úr skilvindu. Þessi úði getur sest á yfirborð sem einhver snertir. Aðrar smitleiðir tengjast óhöppum eins og stunguslysum, dýrabitum, rispum frá lélegum glösum og því að sýni hellist niður eða á viðkomandi. Því er mikilvægt að starfsmaður sé alltaf með hanska, í slopp og með maska þegar unnið er á þessum vinnusvæðum.

Til að forðast smit er lykilatriði að tileinka sér rétt vinnubrögð og árvekni og fylgja ávallt stöðluðum vinnulýsingum. Þegar sýkingar starfsmanna á rannsóknarstofum eru skoðaðar sést að algengustu smitleiðirnar eru óhöpp eins og stungusár, það að sýni berst á húð (t.d. í sár eða rispur) eða það að dropar og úði lenda í slímhimnum starfsmannsins (nefi, munni eða augum). Einnig myndast oft sýkingar frá úða þegar tappar skjótast af glösum. Stunguóhapp skal alltaf meðhöndla strax.

Vandlegur handþvottur með fljótandi sápu og vatni fjarlægir 90% af því smiti sem maður getur haft á höndunum og nægir það við allar venjulegar aðstæður. Þegar unnið er með hættulega líffræðilega skaðvalda eru gerðar meiri kröfur og þá eru gjarnan notuð sótthreinsandi efni til að fjarlægja enn meira af þeim bakteríum sem leynast á húðinni.

Handþvottur er einföld og áhrifarík vörn. Þvoðu þér um hendurnar jafnvel þó þú hafir verið að vinna með hanska. Þvoðu þér áður en þú borðar, drekkur eða snyrtir þig eða ferð á salernið. Þvoðu þér áður en þú tekur í hendina á einhverjum.

Áður en vinna hefst og þegar henni lýkur á að sótthreinsa vinnusvæðið. Það skal gert í upphafi til að menga ekki þau sýni sem unnið verður með og í lokin til að halda vinnusvæðinu hreinu og minnka hættu á smiti. Öll verkfæri (skæri, pinsettur o.fl.) sem notuð eru á svona rannsóknarstofum eru sæfð fyrir notkun. Eftir notkun eru þau sótthreinsuð, þrifin og sæfð að nýju. Tæki eins og skilvindur eru þrifin reglulega með sótthreinsandi vökva til að tryggja að engin mengun geti átt sér stað á milli sýna en einnig til að vernda starfsmenn gegn smithættu. Eftirfarandi vinnureglur skulu viðhafðar þar sem unnið er með líffræðilega skaðvalda:

  • Öll verkfæri sem komast í snertingu við líffræðilega skaðvalda skulu sótthreinsuð og sæfð.
  • Allir skápar, kælar og frystar sem eru notaðir til geymslu á sýnum skulu vera vel merktir sem slíkir og þá skal sótthreinsa reglulega.
  • Sýnum sem fara í skilvindu skal loka þétt og haga því þannig að sem minnst hætta sé á mengun frá sýnunum.
  • Sýnaglös með gúmmítappa skal opna varlega, svo dropar ýrist ekki á þann sem heldur á glasinu.
  • Það er stranglega bannað að nota munninn til að draga upp vökva. Rafmagns pípettur skulu vera á öllum vinnustöðvum.
  • Snertu aldrei húðina með vinnuhönskum. Ekki laga á þér hárið, klóra þér í nefinu, strjúka þér um augun né annað.
  • Ekki setja á þig varalit eða annan farða á rannsóknarstofunni.
  • Allir nemar og starfsfólk eiga að vita hvar augnskol og neyðarsturtur eru staðsettar.

Örverur eru flokkaðar í áhættuflokka eftir þeirri hættu sem mönnum stafar af þeim. Sumar örverur valda sjaldan eða aldrei sýkingum en aðrar eru lífshættulegar, jafnvel í mjög litlu magni (t.d. ef þær leynast í litlum úða). Yfirvöld hafa þess vegna valið að flokka þessar örverur í 4 flokka (sjá við- auka XVIII). Á sama hátt eru þær rannsóknarstofur sem mega vinna með þessar örverur flokkaðar í 4 áhættuflokka.

Vinna með örverur sem eru taldar meinlausar eða mjög ólíklegar til þess að valda sýkingum í mönnum. Starfsmaður þarf að fá grunnþjálfun í að vinna á slíkum rannsóknarstofum en sérmenntunar er ekki þörf. Mikilvægt er að nýir starfsmenn vinni undir eftirliti og fái tilsögn við vinnu sína. Á þessum rannsóknarstofum gilda eftirfarandi vinnureglur:

  • Vinnusvæði rannsóknarstofunnar þarf að vera slétt og auðvelt að þrífa.
  • Handlaug skal vera á staðnum. Mikilvægt er að þvo hendur með sápu og ef hendurnar mengast skal sótthreinsa þær strax.
  • Persónuvarnir, sloppur og hanskar, skulu ávallt notaðar. Ekki má fara í hlífðarfatnaði út af rannsóknarstofunni.
  • Viðeigandi sótthreinsibúnaður skal vera til staðar.
  • Vinnuborð skal þrífa eftir notkun.
  • Verði mengun, skal sótthreinsa allt svæðið.
  • Glervörum og öðrum áhöldum skal komið fyrir á öruggum stað þar til þau hafa verið sótthreinsuð.
  • Allt sorp skal sótthreinsa, nema það fari beint í brennslu.
  • Allt sorp skal flytja í öruggum, lokuðum ílátum.

Vinna með örverur sem geta valdið sýkingum í mönnum og gætu smitað starfsfólk á rannsóknarstofum, en eru ekki líklegar til að valda faraldri. Snerting við „smitað sýni“ veldur sjaldan sýkingu og virk meðferð eða forvörn er til. Dæmi um örverur í þessum flokki eru salmónella, mislingaveiran og bogfrymill (toxoplasma). Enginn má starfa á þessum rannsóknarstofum nema hann hafi fengið kennslu og þjálfun í meðhöndlun líffræðilegra skaðvalda. Sérhvert atriði sem finna má á rannsóknarstofum í áhættuflokki 1 skal uppfyllt, en jafnframt þarf rannsóknarstofan að uppfylla eftirfarandi:

  • Aðgangur að rannsóknarstofunni skal vera takmarkaður við þá aðila sem hafa fengið þjálfun og starfa á staðnum. Óviðkomandi (t.d. gestir) hafa ekki aðgang.
  • Handlaug skal vera við útganginn af vinnusvæðinu. Kranar skulu vera þannig að hægt sé að stjórna þeim án þess að snerta þá með höndunum.
  • Gufusæfir skal vera aðgengilegur til dauðhreinsunar á menguðum úrgangi.
  • Ekki skal nota sprautur, nálar eða aðra oddhvassa hluti, ef hægt er að komast hjá því. Slíkum hlutum skal komið fyrir í öruggu stunguheldu íláti. Ekki reyna að setja hulsur á nálar að notkun lokinni. Nálar má aldrei beygja eða meðhöndla á annan varasaman hátt með höndunum.
  • Hlífðarfatnaður ætlaður vinnusvæðinu skal geymdur aðskilinn frá öðrum vinnufatnaði. Æskilegt er að sloppar séu hnepptir á hliðinni eða að aftan og með löngum ermum. Þeir skulu ávallt vera fullhnepptir.
  • Vinna skal að jafnaði fara fram í öryggisskáp til að takmarka dreifingu sýnis.

Heimild til að vinna með örverur sem geta valdið alvarlegum sýkingum í mönnum og eru mjög varasamar. Smit gæti hugsanlega valdið faraldri, en meðferð eða fyrirbyggjandi meðferð er til. Dæmi um sýkla eru berklabakterían (Mycobacterium tuberculosis), taugaveiki (Salmonella typhi), miltisbrandur (Bacillus anthracis), holdsveiki (Mycobactrium leprae), lifrarbólga (Hepatitis B) og alnæmisveiran (HIV). Öll snerting við „smitað sýni“ er hættuleg og þarfnast tafarlausrar meðferðar. Sérhver starfsmaður verður að hafa fengið kennslu og þjálfun í meðhöndlun hættulegra örvera og í notkun öryggisbúnaðar. Aðbúnaður verður að uppfylla sérhvert það atriði sem finna má á rannsóknarstofum í áhættuflokki 1 og 2, en jafnframt þarf rannsóknarstofan að uppfylla eftirfarandi:

  • Rannsóknarstofan skal vera útbúin á þann hátt að hægt sé að sótthreinsa alla veggi, gólf og loft með gufum (fumigate).
  • Rannsóknarstofan skal vera einangruð frá allri umferð sé þess nokkur kostur. Dyr vinnusvæðisins skulu ávallt læstar og ekki hægt að komast inn á vinnusvæðið nema í gegnum tvennar dyr með rými á milli þar sem jafnframt er hægt að skipta um föt.
  • Inngangur á vinnusvæðið skal vera vel merktur með varnarmerkinu „líffræðilegir skaðvaldar“.
  • Öll vinna skal fara fram í smitvarnarskáp með HEPA-síu. Allir gluggar eiga að vera lokaðir og þéttir.
  • Sérstaka hlífðarsloppa skal nota fyrir þetta vinnusvæði. Æskilegt er að þeir séu í öðrum lit en almennt er notaður.
  • Engin tæki sem eru inni á þessari rannsóknarstofu mega fara þaðan. Ekki má samnýta tæki með öðrum rannsóknarstofum hvort sem það eru kælar, frystar, skilvindur eða mælitæki.

Þar er unnið með örverur sem valda alvarlegum sýkingum í mönnum og geta valdið slæmum faröldrum. Engin fyrirbyggjandi úrræði eru til né lækning. Aðeins fáar örverur eru í þessum flokki, allt veirur. Sem dæmi um slíka veiru er ebola-veiran en aðeins ein rannsóknarstofa á Íslandi uppfyllir kröfur um áhættuflokk 4. Hún er á Landspítala.

Starfsmenn sem vinna með lífsýni geta smitast af þeim sjúkdómum sem þeir eru að vinna með. Almennt er lagt til að starfsfólk sem vinnur með lífsýni sé bólusett gegn lifrarbólgu B og gegn árlegri innflúensu.

Starfsmenn sem vinna með jarðvegssýni, plöntur og dýr þurfa að hafa virka stífkrampabólusetningu. Hana þarf að endurnýja á 10 ára fresti.

Mjög strangar reglur gilda um dýratilraunir og aðbúnað tilraunadýra. Enga dýratilraun má framkvæma nema að fengnu samþykki Matvælastofnunar. Innan Matvælastofnunar starfar Fagráð um velferð dýra sem skipað er samkvæmt lögum um velferð dýra nr. 55/2013. Fagráðið fer yfir allar umsóknir um dýratilraunir og metur mikilvægi tilraunarinnar og um hvers konar inngrip í líf dýrsins sé að ræða. Gerðar eru strangar kröfur til ábyrgðarmanns tilraunarinnar. Hann þarf að hafa aflað sér réttinda til að standa að dýratilraunum. Jafnframt skal dýralæknir fylgjast með heilsu og velferð dýranna (sé rannsakandi ekki dýralæknir).

Alvarlegustu og jafnframt algengustu vandamálin tengd dýratilraunum eru ofnæmi og asmi. Ýmis prótein úr þvagi dýranna, húð, munnvatni og feldi þeirra geta framkallað ofnæmi eða asma. Þvag frá músum og rottum (sérstaklega fullorðnum dýrum) inniheldur mikið af þessum ofnæmisvaldandi próteinum. Starfsmenn með ofnæmi eru í meiri hættu á þessum rannsóknarstofum en aðrir. Aðrar algengar hættur sem tengjast dýratilraunum eru dýrabit, klór og stunguóhöpp. Ábyrgðarmaður rannsóknanna skal kenna starfsmanni hvernig skuli meðhöndla dýrið áður en það er handleikið. Rétt handbrögð veita dýrinu öryggi og minnka líkur á biti eða klóri.

Tilraunadýranefnd setur kröfur um aðbúnað, loftræstingu, stærð búra og umhirðu á þeim vinnusvæðum þar sem dýr eru geymd og notuð. Sambærilegar kröfur eru gerðar til þessara herbergja og gerðar eru til rannsóknarstofa fyrir líffræðilega skaðvalda í áhættuflokki 2/3 (sjá hér að framan). Það þarf að vera auðvelt að þrífa gólf og veggi. Loftræsting þarf að vera öflug og blása ryksnauðu lofti inn á svæðið og munir sem safna ryki eiga ekki að vera inni í dýraaðstöðunni. Hér fyrir neðan er hluti þeirra krafna sem gerðar eru til þessa vinnusvæðis:

  • Aðgangur að rannsóknarstofunni skal vera takmarkaður við þá aðila sem hafa fengið leyfi og þjálfun til að starfa með tilraunadýr. Enginn óviðkomandi (t.d. gestir) hefur aðgang.
  • Aðstaðan skal vera aðskilin frá annarri aðstöðu, sé þess kostur, og ekki í alfaraleið.
  • Vinnusvæðið þarf að vera slétt og auðvelt að þrífa.
  • Þvottaherbergi skal vera á staðnum.
  • Búningsherbergi skal vera á staðnum, þar sem skipt er um klæðnað áður en farið er inn til dýranna. Mikilvægt er að þvo hendur með sápu áður en farið er inn til dýranna og þegar vinnusvæðið er yfirgefið.
  • Persónuvarnir, sloppur og hanskar, skulu ávallt notaðar. Ekki má fara í hlífðarfatnaði út af svæðinu.
  • Sprautum, nálum og öðrum oddhvössum hlutum skal komið fyrir í öruggu stunguheldu íláti eftir notkun. Ekki reyna að setja hulsur á nálar að notkun lokinni. Nálar má aldrei beygja eða meðhöndla á annan varasaman hátt með höndunum.
  • Viðeigandi sótthreinsibúnaður skal vera til staðar.
  • Vinnuborð skal þrífa eftir notkun.
  • Verði mengun, skal sótthreinsa svæðið.
  • Allt sorp skal fara í urðun eða brennslu.
  • Allt sorp skal flytja í öruggum, lokuðum ílátum.
  • Sloppar og annar hlífðarfatnaður ætlaður vinnusvæðinu skal þveginn aðskilinn frá öðrum vinnufatnaði.
  • Sloppar eiga ávallt að vera fullhnepptir.