Geislavirkt efni á rannsóknarstofu er yfirleitt ein tiltekin samsæta efnis, t.d. kolefni-14 (14C) eða radín-226 (226Ra). Geislavirkir kjarnar eru óstöðugir og gefa frá sér geislun (hrörna) til þess að komast í stöðugra ástand. Flest efni gefa frá sér nokkrar gerðir af geislun og kjarninn breytist í samræmi við það hve mikil orka (og stundum einnig massi) fór frá honum með geisluninni. Ef sætistala efnis breytist við geislunina verður til annað efni, ef ekki verður til önnur samsæta sama efnis. Geislun frá geislavirkum efnum getur verið:
- Alfa-geislun; frá kjarna fer ögn með massatöluna 4 og +2 hleðslu (= helín-kjarni, α)
- Beta-geislun; frá kjarna fer ögn sem er eins og rafeind (β-), en getur verið plúshlaðin (jáeind, (β+)
- Gammageislun; frá kjarna fer rafsegulgeislun sem hefur hvorki massa né hleðslu (γ)
- Nifteindageislun; frá kjarna fer nifteind (n), hún hefur massatöluna 1 og enga hleðslu
Alfa, beta og nifteindageislun eru oft kallaðar einu nafni agnageislun. Virkni geislavirkra efna er mæld í kjarnbreytingum á sekúndu og hefur eininguna Bequerel.
1 Bq = ein kjarnbreyting á sekúndu
Bequerel er smá eining og oftast notuð með stækkandi forskeytum eins og t.d. M (mega) eða G (gíga). Eldri eining fyrir geislavirkni er Ci, sem er mjög stór eining. 1 mCi = 370 MBq. Þegar geislavirk efni hrörna minkar magn þeirra og þar með virknin. Tíminn sem það tekur magn (og virkni) efnis að minnka niður í 50% af upphaflegu magni er kallaður helmingunartími. Gerð geislunar frá efni og helmingunartími er mjög mismunandi á milli efna, en einkennandi fyrir hverja og eina kjarntegund. Það má því þekkja efni á geisluninni frá því og spá fyrir um líftíma þess.
Skammtur af geislavirku efni fyrir tiltekna notkun er kallaður geislalind.
Lokuð geislalind er þannig að geislavirka efninu er komið fyrir inni í hylki sem efnið á ekki að geta farið út fyrir. Dæmi um lokaða geislalind er nikkel-63 (63-Ni) í efnagreiningartæki.
Opin geislalind er skammtur af geislavirku efni, t.d. á vökva- eða duftformi sem hægt er að vinna með á þann hátt að efnið getur dreifist, eða getur mögulegt dreifst, við notkunina. Dæmi um opna geislalind er I-125 merkt aldosteron.
Hættan sem stafar af geislavirkum efnum felst í því að þau geta valdið geislun á fólk. Þegar unnið er með lokaðar geislalindir er einungis til staðar hætta á ytri geislun, þ.e.a.s. að líkaminn verði fyrir geislun utan frá, en þegar unnið er með opnar geislalindir er einnig til staðar hætta á innri geislun, þ.e.a.s. að geislavirk efni berist inn í líkamann og geisli hann innan frá.
Geislavirk efni eru mjög mismunandi hættuleg og kröfur til þeirra sem nota þau því mismiklar. Alfa-geislun er mjög hættuleg komist efni inn í líkama (um sár, munn eða nef) en farsvið hennar er mjög stutt (fáir µm) og hún geislar því aðeins þar sem geislavirka efnið er.
Beta-geislun er bæði hættuleg inni í líkama og utan hans þó skemmdirnar af hennar völdum séu minni en af völdum alfa-geislunar. Farsvið beta-geislunar er nógu langt (nokkrir mm) til þess að geta valdið húðbruna á óvarinni húð.
Gammageislun veldur minni skaða en agnageislun, en á móti kemur að smýgni gammageislunar er mikil og erfitt að deyfa hana. Smýgni og áhrif nifteindageislunar á líkamann fara mikið eftir orku geislunarinnar og alltaf þarf að skipuleggja varúðarráðstafanir í samræmi við upplýsingar um það.
Geislalindir eru flokkaðar í hættuflokka 1-5, þar sem hættulegustu efnin eru í flokki 1. Geislalindir í hættuflokkum 1-3 eru hágeislavirkar og um þær gilda sérstakar reglur. Sjá nánar í riti GR20:02 og reglugerð nr. 1298/2015 um lokaðar geislalindir.
Rannsóknarstofur þar sem unnið er með geislavirk efni eru flokkaðar í flokk A – C þar sem hættulegasta notkunin er í flokki A, sjá nánar riti Geislavarna ríkisins, GR04:02 um flokkun rannsóknastofa, og reglugerð nr. 809/2003 um opnar geislalindir.
Þegar unnið er með opnar geislalindir þarf bæði að verjast ytri og innri geislun.
Varnir gegn innri geislun felast geislavarnir fyrst og fremst í því að koma í veg fyrir að geislavirkt efni komist inn í líkamann. Meta þarf út frá eiginleikum efnisins (t.d. hvort það er agnageislandi eða rokgjarnt), magninu sem er til meðhöndlunar hverju sinni og eðli vinnunnar hvernig hlífðarbúnaður er nauðsynlegur.
Hlífðarföt, hanskar og grímur eru annars vegar notuð til þess að koma í veg fyrir að geislavirkt efni berist inn í líkamann, og hins vegar til þess að varna því að þau berist burt af vinnusvæðinu.
Aldrei skal unnið með opnar geislalindir án hanska og gæta þarf þess sérstaklega að geislamengun berist ekki með hönskum. Þegar unnið er með beta-geislandi efni þarf einnig að huga sérstaklega að hættu á húðbruna.
Varnir gegn ytri geislun byggjast á eftirfarandi þrem grundvallaratriðum, hvort sem um er að ræða opnar eða lokaðar geislalindir:
- Fjarlægð frá geislalindinni. Geislun minnkar með fjarlægð í öðru veldi og er því áhrifaríkt að auka fjarlægð.
- Tími. Geislun á líkamann eykst í réttu hlutfalli við tímann sem varið er í geislasviðinu og því skal takmarka tímann sem varið er þar.
- Skýling. Með skýlingu er átt við að nota efni sem deyfa geislun mikið til þess að minnka geislun frá geislalind á umhverfi sitt. Geislalindir skal alltaf geyma í einhvers konar skýlingu.
Notkun lokaðra geislalinda felur yfirleitt í sér að opna fyrir geislun frá geislalind (t.d. opna glugga á lindarhúsi) eða að færa geislalind tímabundið úr skýlingu. Þegar lind er tekin úr skýlingu eða opnað fyrir geislun frá henni verður geislasvið umhverfis hana margfalt. Upplýsingar um geislasvið eiga að vera aðgengilegar í leiðbeiningum um notkun geislalindar.
Við val á efnum til skýlingar er mikilvægt að þekkja gerð og orku geislunar frá geislavirka efninu sem um ræðir.Notkun allra geislalinda á að vera þannig að fólk verði fyrir eins lítilli geislun og hægt er. Beita skal samspili fjarlægðar, tíma og skýlingar á sem hagkvæmastan hátt við vinnuna til þess að tryggja að svo sé. Ef notkun geislalinda getur fylgt geislun á fólk umfram þau hámörk geislunar sem almenningur má verða fyrir á ári flokkast þeir sem vinna með geislalindina sem geislastarfsmenn. Sjá nánar í riti Geislavarna ríkisins GR19:06.
Þeir sem hafa leyfi til að nota geislavirk efni bera ábyrgð á því að fylgja lögum og reglugerðum. Á Íslandi er öll notkun og geymsla geislavirkra efna sem eru yfir undanþágumörkum (sjá GR19:04) leyfisskyld. Sótt er um leyfi til Geislavarna ríkisins. Tilnefna þarf ábyrgðarmann geislavarna og tilgreina hvernig notkun er um að ræða.
Lög og reglugerðir:
- Lög um geislavarnir (44/2002)
- Reglugerð (1290/2015) um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfsemi þar sem notuð er geislun
- Reglugerð (1298/2015) um geislavarnir við notkun lokaðra geislalinda
- Reglugerð (1299/2015) um geislavarnir vegna notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun
- Reglugerð (809/2003) um notkun opinna geislalinda
Þeir sem hyggjast nota geislavirk efni eða geislatæki bera ábyrgð á að sækja um og viðhalda viðeigandi leyfum. Ábyrgðarmenn sem tilnefndir eru af HÍ og skráðir eru á leyfisbréf skulu vera starfmenn skólans. Hætti ábyrgðarmaður störfum skal hann tilkynna það til Geislavarna ríkisins og til öryggisnefndar HÍ.
Þar sem geislavirk efni eða geislatæki eru notuð skal/skulu:
- Leyfi vera sýnilegt
- Tölvupóstfang og símanúmer ábyrgðarmanns geislavarna vera sýnilegt
- Leiðbeiningar um notkun vera til staðar og aðgengilegar.
- Leiðbeiningar um viðbrögð við óhöppum vera til staðar, ásamt greiningu á hver þau gætu verið.
- Vera til staðar upplýsingar um hverjir hafi lokið þjálfun og hvenær.
- Unnið með opnar geislalindir á afmörkuðum vinnusvæðum.
- Geymslu þannig háttað að hverfandi líkur séu á að efnin komist í hendur óviðkomandi.
Öryggisnefnd HÍ heldur lista yfir ábyrgðarmenn geislalinda og röntgentækja, sem og þá sem eru tengiliðir við Geislavarnir ríkisins vegna einstaklingsgeislamælinga.