Tryggingar

Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eru þeir sjúkratryggðir sem hafa haft lögheimili á Íslandi í a.m.k. sex mánuði áður en bóta er óskað. Það þýðir að íslenska ríkið tekur þátt í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, bæði vegna almennrar heilsuverndar og vegna slysa eða sjúkdóma. Þó er tannlæknaþjónusta undanskilin nema einstaklingurinn sé yngri en 18 ára.

Einstaklingar þurfa að greiða komugjöld á heilbrigðisstofnunum og hluta af lyfjakostnaði eftir reglum sem um það gilda.

Þeir sem ætla að koma til vinnu á Íslandi til skemmri tíma eru oftast tryggðir með milliríkjasamningum eða af almannatryggingakerfi í sínu heimalandi. Réttast er að kanna hvort það sé raunin og kaupa viðbótartryggingu ef þess gerist þörf.

Starfsfólk háskólans er slysatryggt bæði í starfi og í frítíma samkvæmt kjarasamningi sem vísað er til í ráðningasamningi

Háskólanemar og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum eða raunvísindum eru tryggðir þegar þeir sinna verklegu námi.

Skoða þarf sérstaklega slysatryggingar þeirra sem ekki falla undir framangreindar reglur, s.s. þeir sem koma í starfsþjálfun eða sem skiptinemar.

Nemendum háskólans sem fara til námsdvalar í löndum innan EES er bent á að hafa meðferðis gilt evrópskt sjúkratryggingakort hafi þeir slíkt kort annars þurfa þeir að framvísa tryggingum í samræmi við kröfur gestaskólans.

Starfsþjálfun innan EES

Nemendur sem sækjast eftir starfsþjálfun innan EES skrifar undir yfirlýsingu þess efnis að þau muni útvega sér bæði skaðabóta- og slysatryggingu á meðan á dvölinni stendur ef móttökustofnun útvegar ekki slíkar tryggingar. Einnig er nemendum bent á að hafa meðferðis gilt evrópskt sjúkratryggingakort.

Í starfsþjálfun er mikilvægt að útvega viðeigandi tryggingar sem viðurkenndar eru innan Erasmus samstarfsins. Best er að hafa samband við sitt tryggingarfélag og athuga hvort það bjóði upp á slíkar tryggingar. Landsskrifstofa Erasmus á Íslandi hefur áður samþykkt tryggingar frá fyrirtækinu Dr Walter.

Nemendur bera sjálfir ábygð á að útvega ferða- og sjúkratryggingar, vottorð og önnur gögn sem gestaskólinn fer fram á. Ferðatryggingar krítarkortafyrirtækjanna gilda tímabundið. Nemendum er bent á að sækja um sjúkratryggingu fyrir íslenska námsmenn erlendis hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Athugið að margir skólar krefjast þess að nemendur kaupi þeirra sjúkratryggingu og taka ekki íslenskar sjúkratryggingar gildar.

Hér er aðeins stiklað á stóru en nákvæmar leiðbeiningar um hvernig erlendir stúdentar eiga að skrá sig inn í landið er að finna hér, þar á meðal eru leiðbeiningar um tryggingar.

Nemendur sem koma frá löndum innan EES

Ef dvölin er eitt misseri nægir að skrá sig á þjónustuborði og fá notendanafn og lykilorð til að geta notað innri vefinn: Uglu. Jafnframt þarf að sýna gilt evrópskt sjúkratryggingakort

Ef dvölin er heilt skólaár eða lengri þarf að skrá aðsetur á Íslandi, sýna fram á framfærslu og skrá sig hjá Sjúkratryggingum Íslands. Nauðsynlegt er að hafa evrópskt sjúkratryggingakort og E104 eða S041 sem tryggingu fyrstu sex mánuðina en að þeim liðnum tekur íslenska sjúkratryggingakerfið við. Það er því mjög brýnt að skrá sig strax. Nánari upplýsingar

Nemendur sem koma frá löndum utan EES

Sækja þarf um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun vegna náms. Meðal skjala sem þarf að leggja fram eru heilsutryggingar fyrir fyrstu sex mánuðina en þær er hægt að kaupa hjá íslenskum tryggingafélögum. Að sex mánuðuðum liðnum taka íslenskar sjúkratryggingar við. Það er því mjög brýnt að skrá sig strax. Nánari upplýsingar