Feltferðir

Áður en lagt er í ferðalag til að safna gögnum eða sýnum er mikilvægt að skipuleggja ferðina vandlega. Hvaða búnað þarf að hafa með? Í hvaða röð á að vinna? Hvaða leið á að fara? Hvar á að gista? Hvað verður í matinn? Hvað á að safna miklum efnivið? Það er langur listi sem þarf að búa til svo öllum þessum spurningum sé svarað og öðrum sem kunna að vakna. Það er skynsamlegt að skrifa þetta hjá sér og uppfæra svo listann þegar ferðinni er lokið til að næsta ferð takist betur en hin fyrri.

Það er mjög algengt að fólk fari oft í ferðir á sömu staði og smám saman slípast ferðirnar til og smám saman fær fólk það á tilfinningun að verkefnin vinni sig hálfpartinn sjálf og vandaður undirbúningur flýtir fyrir.

Ísland er lítil eyja í norður Atlandshafi og veður geta verið válind hér. Veður er stærsti einstaki áhættuþáttur ferðalaga á Íslandi og það borgar sig að taka mark á veðurspám og viðvörunum Veðurstofu Íslands. Lokaákvörðun um að leggja í ferðalag á Íslandi á aldrei að taka nema með hliðsjón af veðurspá, sérstaklega ef ætlunin er að fara upp á hálendið og alveg sérstaklega ef ferðast er að vetri til. Það er aldrei of varlega farið.

Björgunarsveitirnar eru frábær félagsskapur sjálfboðaliða sem bregðast skjótt við ef eitthvað bjátar á en maður vill vera viss um að það sé ekki verið að kalla út fólk til að bjarga manni bara vegna þess að maður skoðaði ekki veðurspána. Það er vandræðalegt!

Fylgist með veðurspám Veðurstofu Íslands

Fylgist líka með upplýsingum um færð á vegum á vef Vegagerðarinnar, þar eru líka veðurupplýsingar og vefmyndavélar sem auðvelda fólki að átta sig á aðstæðum.

Bíllinn sem valinn er til ferðarinnar þarf að vera rétt útbúinn fyrir það svæði sem ferðast á um. Það verður að passa upp á að bíllinn sé öruggur og líklegur til að skila ferðalöngum heilum til baka úr ferðinni. Almennt er litið svo á að bifreið sem fær skoðun sé örugg til notkunar en það þarf að gæta að því þegar farið er í vinnuferð að öryggisbúnaður bílsins hæfi því hlutverki sem honum er ætlað.

Landsbjörg heldur úti vefsíðu, safetravel.is, þar sem ferðamenn geta fræðst um öryggi á vegum á Íslandi, útbúnað bífreiða og akstur við íslenskar aðstæður. Vefurinn er á fimm tungumálum og það er engu hægt að bæta við það sem þar kemur fram. Það er gott að byrja þar og hvetja erlenda gesti sem ætla að keyra um Ísland til að kynna sér þann vef áður en lagt er í'ann.

Á vef Vegagerðarinnar eru upplýsingar um færð á vegum og veðurfar sem mikilvægt er að taka með í reikninginn.

Það er sjálfsagt að gera áhættumat fyrir feltferðir. Það er frekar algengt að tilteknu rannsóknaverkefni fylgi margar feltferðir á sama svæði þar sem vinnuskipulag er svipað og áhættumatið gildir fyrir allar þessar ferðir. Áhættumat er aðferð til þess að finna veika bletti í skipulaginu og ákveða fyrirfram hvernig á að bregðast við. Í áhættumatinu er líka skilgreindir mælikvarðar, til dæmis: Hætt er við ferðir ef Veðurstofan gefur út gula viðvörun fyrir svæðið. Tökum dæmi. Hér fyrir ofan eru nefndir þrír áhættuþættir í feltferðum: Skipulag, veður og akstur. Hvað getur farið úrskeiðis?

Skipulag:

Áhætta: Fólk er gleymið og það er hætta á að tæki eða búnaður gleymist.
Svar: Búnaðarlisti sem farið er yfir áður en lagt er af stað.

Veður:

Áhætta: Það gæti farið að rigna.
Svar: Allir taka með regnfatnað og þurra sokka.

Akstur:

Áhætta: Bíllinn gæti orðið bensínlaus.
Svar: Fyllið á tankinn áður en lagt er af stað.

Margt af þessu segir sig sjálft og við erum jú alltaf að gera áhættumat og bregðast við áhættu. Bara það að ganga yfir götu er gott dæmi. Maður gerir áhættumat, þ.e. lítur til beggja handa. Fylgir skilgreindum mælikvarða, þ.e. ef maður sér bíl bíður maður þar til hann er farinn hjá og þegar það er óhætt gengur maður yfir götuna. Stundum kemur sér vel að nota sérstök öryggistæki til að stýra áhættunni, í þessu tilfelli gangbraut og gönguljós.

Þetta eru auðvitað bara einföld dæmi en gefa hugmynd um það hvernig þarf að hugsa þegar áhættumatið er gert.

Það er mikið öryggi af því að skilja eftir ferðaáætlun þegar farið er í feltferð. Hvort sem ferðin er stutt eða löng. TENGILL