Viðbrögð við slysum

Ef það verður slys

  • Engan asa! Ekki rjúka til að hreinsa upp stórhættuleg eða jafnvel baneitruð efni í einhverjum flýti. Staldraðu við eitt augnablik til að meta aðstæður.
  • Fyrst er að meta stærð slyssins eða lekans og vara starfsfólk á rannsóknastofunni við. Hringja í 1-1-2 ef þess gerist þörf.
  • Á landspítalanum er starfrækt eiturefnamiðstöð sem veitir ráðleggingar vegna eiturefnamengunar, síminn þar er: 543 2222
  • Næst er að stöðva útbreiðslu lekans eins og kostur er og forða þeim sem hafa slasast ef einhverjir eru og veita þeim aðstoð og skyndihjálp eftir þörfum.
  • Gætið þess að það er ekki víst að það sé gott að opna glugga þar sem það getur breytt undirþrýstingi á rannsóknastofunni í yfirþrýsting sem getur dreift mengun meira en annars.
  • Varist það að sumar gastegundir eru lyktarlausar, t.d. kolmónoxíð, og sum efni deyfa lyktarskyn, t.d. vetnisperoxíð.

Ekki gleyma að tilkynna slysið!

Remote video URL

Bráðaviðbrögð við efnaslysi

Kallaðu á aðstoð nærstaddra.

Almennt er mælt með því að skola strax með vatni ef maður fær efni á húð eða í augu. Þess má þó geta að efni hafa ekki öll jafn slæm áhrif og það er nauðsynlegt að miða skolunina við það hve hættulegt efnið er:

  • 5 mínútur ef efnið er ertandi
  • 15-20 mínútur ef efnið er mjög ertandi eða getur valdið eituráhrifum í gegnum húð
  • 30 mínútur ef efnið er ætandi
  • 60 mínútur ef efnið er sterkur basi, t.d. natrium, kalium eða calsíum hýdroxíð.

Þessar tölur eru aðeins nefndar til viðmiðunar en miklu skiptir að byrja strax að skola.

Ef þú fær efni í auga skiptir miklu máli að bregðast skjótt við. Það er augnskol áfast við a.m.k. einn krana í hverri rannsóknastofu innan háskólans.

  • Byrjaðu strax að skola
  • Fjarlægðu augnlinsur ef þú notar þannig og haltu svo áfram að skola.
  • Notaðu sömu viðmið um tímalengd eins og hér fyrir ofan.
  • Ef þú þarft að fara á bráðamóttökuna skaltu taka með þér flösku af augnskoli til að nota á leiðinni.

Ef þörf er á utanaðkomandi aðstoð skaltu hringja strax í 1-1-2

Ef sjúkrabíll er á leiðinni verður að senda einhvern út til að taka á móti honum og vísa sjúkraflutningamönnum leiðina.

Ekki gleyma að tilkynna slysið!

Fyrir smávægileg efnaslys

Ef slysið er aðeins minni háttar má nota ísogsefni og efnapylsur sem eru í efnaslysakassanum til að hreinsa upp það sem hefur hellst niður.

Svona ferð þú að:

  • Efst í kassanum er blað með upplýsingum um hvað er í kassanum og einfaldar leiðbeiningar.
  • Áður en þú byrjar að hreinsa upp efnaleka skaltu biðja alla sem eru í herberginu að fara fram á meðan, það er þeim fyrir bestu.
  • Byrjaðu á að verja sjálfan þig, setti á þig grímu, gleraugu og hanska, að minnsta kosti.
  • Notaðu efnapylsuna til að takmarka útbreiðslu lekans, ef hann stefnir á niðurfall t.d. verður að stöðva hann. Einnig má nota hana til að sópa saman glerbrotum og slettum.
  • Sópið upp glerbrotum og setjið í plastkassann.
  • Dreifið uppsogsefni yfir og látið það sjúga upp vökvann, sópið því síðan upp og setjið í plastpoka.
  • Notið þurrkur til að klára að þurrka upp vökva, setjið allt saman í plastpoka.
  • Safnið öll saman í plastkassann, merkið sem spilliefni, og glerbrot ef það á við, og setjið á spilliefnastað byggingarinnar.
  • Hafið samband við öryggisnefnd HÍ á oryggi@hi.is til að fá fyllt á kassann.

Ekki gleyma að tilkynna slysið!

Remote video URL

Bráðaviðbrögð við stunguslysi

Ef unnið er með vefjasýni úr mönnum eða dýrum.

  • Kreistið blóð úr sárinu eins og hægt er.
  • Þvoið sárið undir rennandi vatni og þerrið.
  • Sprittið sárið
  • Farið á bráðamóttöku, munið að taka með allar upplýsingar um sýnið.

Viðbragð bráðamóttöku er eftirfarandi:

  • Tekið er blóðsýni
  • Sýnið er prófað fyrir HIV, Lifrarbólgu B og Lifrarbólgu C að minnsta kosti, fleiri próf eru gerð ef ástæða þykir til.
  • Ef um áhættustungu er að ræða eða uppruni nálar/áhalds er óþekktur þarf að fara í framhaldsblóðprufur eftir 6 vikur, 3 mánuði og 6 mánuði.

Ekki gleyma að tilkynna slysið!