Skiljun, stundum nefnd afskiljun eða aflskiljun er mikið notuð á rannsóknastofum. Þá er miðflóttaafli beitt til að skilja að efni, frumur, frumuhluta eða vökva til dæmis, eftir þyngd, þéttni, seigju eða annarra eiginleika. Tæknin byggist á því að sýnum er raðað í rótor skilvindunnar sem snýr þeim á tilteknum hraða sem mældur er í snúningum á mínútu, í tiltekinn tíma.
Afl skiljunar er hlutfall af radíus rótors skilvindunnar og snúninga á mínútu (RPM, Rounds Per Minute) og er gefin upp sem margfeldi af g, eða hlutfallslegt miðflóttaafl (RCF, Relative Centrifugal Force).
Jafnan sem lýsir þessu er:
g = (1.118 × 10-5) x R x S2
Þar sem g er hlutfallslegt miðflóttaafl (RCF), R er radíus rótorsins í sentimetrum og S er snúningar á mínútu (RPM)
Skilvinda sem ekki er rétt stillt eða í einhverju ólagi getur verið stórhættuleg. Gefðu þér tíma til að huga að nokkrum öryggisatriðum áður en þú setur skilvindu í gang.
Það getur borgað sig að ganga úr skugga um að allt sé i lagi áður en sýni eru sett í skilvinduna. Er rótorinn í lag? Eru sveifarfötur liðugar? Eru engin óhreinindi í rótornum sem geta haft áhrif á jafnvægi. Eftir því sem skilvindan er stærri og snúningshraði meiri eykst mikilvægi svona athugunar.
Þetta á líka við þegar skiljun er lokið, þá er réttast að skoða hvort ekki sé allt í lagi með skilvinduna, enginn leki hafi orðið því stundum getur vökvi smitast út úr sýnaglösum án þess að þau brotni. Maður á að skilja við skilvinduna eins og maður vill koma að henni.
Miklu máli skiptir að jafnvægisstilla rótorinn áður en skilvindan er gangsett. Þar sem það er miðflóttaafl sem er að verki verður að raða sýnum í rótorinn þannig að þyngd þeirra dreifist jafnt yfir þvermál rótorsins. Því meira sem miðflóttaaflið er því nákvæmari þarf jafnvægisstillingin að vera. Illa jafnvægisstillt skilvinda fer að titra þegar hraðinn eykst og sá titringum eykst áfram með hraðanum og getur valdið skemmdum á skilvindunni og slysahættu ef eitthvað gefur sig, t.d. ef glös brotna.
Ganga verður úr skugga um að glösin sem sýnin eru í þoli skiljunina. Glös eru mismunandi og sum eru sérstaklega gerð til að þola skiljun á meðan önnur eru það ekki. Það er leiðinlegt að tapa sýnunum sínum vegna þess að glösin brotnuðu í skilvindunni og það er líka leiðinlegt að þurfa að þrífa skilvinduna. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar verið er að vinna með lífsýni og hætta á að smitefni sleppi út ef glösin brotna.
Mikilvægt er að hafa það í huga að yfirfylla ekki glösin, aldrei meira en u.þ.b. ¾ og loka þeim síðan tryggilega svo ekkert sleppi út. Úði sem sleppur úr ólokuðum eða illa lokuðum skilvinduglösum getur smám saman valdið tæringu í skilvindunni sem endar með því að hún bilar en slíkur úði getur líka innihaldið eitur eða smitefni sem verður að halda í skefjum því sá sem vinnur við skilvinduna getur andað þeim að sér og það er ekki víst að það sé heilsusamlegt.
Ef vart verður við einhverja bilun í skilvindu á að slökkva á henni, taka hana úr sambandi og kalla á viðgerðarmann. Það borgar sig ekki að taka neina áhættu.